Formaður Miðflokksins

Tækifæri á tímamótum

Við áramót er hefðbundið að horfa bæði um öxl og fram á veginn, meta það sem vel hefur verið gert og læra af mistökum fortíðar. Nýju ári fylgja ætíð ný tækifæri og það er hvers og eins að nýta þau tækifæri eins vel og mögulegt er.

Við þessi áramót blasir við okkur dæmi sem gæti innihaldið alla þessa þætti, sjálfskoðun, mistök fortíðar, möguleika á að læra og ný tækifæri. Á nýju ári stendur til að festa í sessi áratuga gömul áform um að nýr Landspítali skuli byggður við Hringbraut.

Í fáum verkefnum er jafn mikil þörf á því að litið sé til baka í því skyni að læra af mistökunum, og í fáum málum standa okkur til boða eins augljós tækifæri.

Á undanförnum árum hef ég oft lýst þeirri skoðun að ég teldi æskilegt að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut en um leið haldið því fram að ekkert ætti að gera sem leitt gæti til tafa á nauðsynlegum úrbótum við Hringbraut eða tafið framtíðar uppbyggingu. Það er mikil og dýr hönnunarvinna framundan og eftir því sem nær dregur framkvæmdum verður hönnunarvinnan sérhæfðari og háðari staðsetningu og endanlegu útliti. Rétti tíminn til að ræða hvort aðrir kostir kunni að vera betri en Hringbraut miðað við núverandi aðstæður er því núna.

Ýmsar úttektir og skýrslur hafa verið birtar um þetta mál á undanförnum áratugum og það er lífseig goðsögn að þær komist allar að þeirri niðurstöðu að Hringbraut sé besti kosturinn. Raunar benda flestar þeirra á aðra kosti umfram Hringbraut. Auk þess eru allar þær forsendur sem notaðar voru til að rökstyðja uppbyggingu við Hringbraut gjörbreyttar.

Á nýju ári gefst fullkomið tækifæri til að láta fara fram faglega staðarvalsgreiningu, af aðilum sem ekki hafa komið að verkefninu áður, þar sem farið verði vel yfir alla þá kosti sem í boði eru.

Ég hef á síðustu árum nefnt nokkra staði sem gætu hentað vel fyrir nýjan Landspítala og það hafa margir aðrir gert líka.

Land Keldna hentar mjög vel með tilliti til umhverfis, samgangna, þróunarmöguleika o.fl.. Nefndir hafa verið staðir umhverfis Elliðaárvog sem hafa ýmsa kosti. Margir hafa fært rök fyrir því að best væri að byggja upp umhverfis Borgarspítalann en þar hefur lóðum verið ráðstafað í ýmislegt annað á undanförnum árum þótt uppbygging þar sé ekki útilokuð. Loks bendi ég á Víðidal sem er staðsetning sem myndi henta afburðavel með tilliti til samgönguæða. Það er land á jaðri höfuðborgarsvæðisins en samt í því miðju og tengt því í allar áttir en um leið tengt akstursleiðum til og frá Reykjavík og í nálægð við fallega náttúru. Loks hafa Vífilsstaðir mikla kosti á flestum sviðum sem mestu máli skipta en auk þess hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ boðist til að flýta sérstaklega fyrir skipulagsvinnu og öðru sem þyrfti til að byggja nýjan spítala frá grunni þar.

Kostirnir

Húsakostur Landspítalans við Hringbraut virðist vera í miklu verra ástandi og henta mun verr en ráð var fyrir gert þegar forsendur staðarvals byggðust á því að mikilvægt væri að nýta gamla húsnæðið. Af fréttum að dæma virðist vandfundin sú starfsemi sem hentar jafnilla í núverandi húsnæði Landspítalans við Hringbraut og sjúkrahúsrekstur.

Ljóst er að ef byggt yrði við Landspítalann við Hringbraut þýddi það að sjúklingar, gestir þeirra og starfsmenn spítalans myndu búa við viðvarandi hávaða og annað rask árum saman. Endalaus og ærandi högg frá stórvirkum vinnuvélum að fleyga berg, sprengingar, sundurgrafnar lóðir og aðrar truflanir. Árum saman væru tómir og hlaðnir vörubílar og steypubílar á ferð til og frá miðbæ Reykjavíkur og á milli húsa Landspítalans og stórvirkar vinnuvélar að störfum, gröfur, ýtur og kranar. Hávaði og ryk myndu einkenna lífið á Landspítalanum.

Það þyrfti að endurnýja nánast allt núverandi húsnæði spítalans með endalausu raski og tilfæringum. Svo þyrfti að tengja þetta allt innbyrðis og við nýbyggingar spítalans. Útilokað er að það myndi nokkurn tímann virka jafnvel og húsnæði sem væri hannað og byggt sem heild með tilliti til nútíma þarfa.

Á Vífilsstöðum, í Víðidal eða á Keldum væri hins vegar hægt að hanna nýjan glæsilegan spítala frá grunni í samræmi við möguleika og þarfir samtímans. Enginn fjáraustur í að reyna að gera við hálfónýta hluti, tjasla því saman sem ekki passar saman og laga óhentugar byggingar að heilbrigðisþjónustu 21.aldar.

Hagkvæmni þess að fara í eitt stórt verkefni þar sem allt passar saman er ótvíræð, hvort sem litið er til byggingarkostnaðar eða hagræðisins af því að reka slíka einingu samanborið við safn ólíkra húsa frá 100 ára tímabili.

Á meðan á framkvæmdum stendur getur starfsemi Landspítalans við Hringbraut haldið áfram ótrufluð. Þegar framkvæmdumer lokið eða a.m.k. búið að innrétta einhverjar álmur spítalans er byrjað að flytja starfsemina yfir í nýja húsnæðið ásamt þeim tækjum sem ekki fara á haugana eða lækningaminjasafn. Eftir fáein ár stæði glæsilegur fullbúinn spítali í fallegu umhverfi þar sem fólki liði vel að koma. Þar væri nægt andrými, starfsmenn og námsfólk gæti stundað hreyfingu og útivist í fallegri náttúru í kringum spítalann.

Staða ríkissjóðs hefur verið stórbætt á undanförnum árum auk þess sem verðmæti fasteigna og lóða í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkað gríðarlega frá því að síðast var lagt mat á staðsetningus pítalans. Með því að selja húsnæði og lóðir gætu ríki og borg náð tugmilljarða tekjum. Þessar tekjur gæti ríkissjóður nýtt til að standa straum af umtalsverðum hluta byggingarkostnaðar nýs spítala.

Valið

Valið stendur því á milli tveggja augljósra kosta:

Annars vegar að halda áfram óljósum hægvirkum og óhagkvæmum bútasaum við Hringbraut, endalausri baráttu við alkalískemmdir, myglu, gamalt lagnakerfi og úrelta tækni í tugum bygginga og við að tengja það gamla við nýbyggingar til að láta allt virka sem heild. Rannsóknarstörf, kennsla, aðgerðir, sjúkrahúslega veiks fólks og aðrar lækningar færu fram á meðan loftborarnir hamast fyrir utan og grjótinu er mokað í vörubíla. Eftir stendur svo þyrping ólíkra gamalla kassa og nýrra stærri grárra kassa. Þyrping sem stendur utarlega á nesi sem tengt er restinni af höfuðborgarsvæðinu með götum þar sem umferðarteppur eru regla fremur en undantekning.

Hins vegar að byggja frá grunni glænýjan, heildstæðan hátæknispítala, hannaðan til að virka sem ein heild og veita umgjörðum bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Fallegt hús að innan sem utan á jaðri byggðarinnar, umkringt fallegri náttúru og útivistarsvæðum. Húsið mætti byggja hratt með lágmarkstruflun á framkvæmdum og lágmarkstruflun fyrir borgarbúa og fjármagna verkefnið að miklu leyti með sölu á eignum við Hringbraut. Eignum sem ganga svo í endurnýjun lífdaga með nýtingu sem hentar svæðinu og styrkja og vernda miðborgina.

reykjavík-sjukrahus

BETRI STAÐSETNINGAR NÝS LANDSSPÍTALA – HJARTA  (MYND BÆTT VIÐ AF RITSTJÓRN)

Lykilatriðið er að láta ekki stefnu sem mörkuð var fyrir áratugum síðan móta framtíðina í dag án þess að taka tilgreina þær gríðarlegu breytingar á aðstæðum og forsendum sem orðið hafa síðan. Nýtum tækifærið á nýju ári til að læra af mistökum fortíðar og byggja þjóðarsjúkrahús framtíðarinnar á nýjum stað fyrir nýjar kynslóðir.

Birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2017.

Auglýsingar