Forsíðufréttir

Gunnar Bragi – Spítalinn – „Hefur enginn spáð í hvað hefur breyst á þessum 17 árum?”

Gunnar Bragi

Gunnar Bragi

Þrátt fyrir að margsinnis sé búið að benda á þau miklu mistök sem viðbyggingar á Landspítalanum við Hringbraut eru þá er haldið áfram. Ekki er sest niður og málið skoðað út frá nýjustu upplýsingum, tækni, þróun höfuðborgarsvæðisins, skipulagsmála o.s.frv.

Áfram skal haldið þrátt fyrir að um augljós mistök sé að ræða.

Þeir eru vandfundnir sérfræðingarnir sem þekkja til málsins og mæla með að halda þessu áfram.

Á fundi sem Samtök um betri spítala héldu í Norræna húsinu fyrir síðustu kosningar var sýnt fram á hvaða bull er þarna í gangi. Þá kom líka fram í fyrirspurnum fundarmanna að starfsfólki hefði verið bannað að tjá sig um málið nema þeim sem voru fylgjandi staðsetningu við Hringbraut. Fundarmenn, sem margir voru starfsmenn Landspítalans, fullyrtu þetta. Sé þetta rétt er ljóst að eitthvað mikið er að í stjórnun Landspítalans sem sífellt meiri fjármunir munu ekki bæta.

Áætlanir um „nýjan“ Landspítala eru gamlar og byggist öll framkvæmdin á gömlum plönum þar sem flest hefur líklega breyst, þar með skipulagsmál. Í skýrslu Ementor, danskra sérfræðinga, frá árinu 2001, eru settir fram nokkrir valkostir og þeir rökstuddir. Af niðurstöðunni má ráða að Danirnir telji ekki síðri kost að byggja nýjan spítala á nýjum stað. Þar segir á bls. 61 „If a new hospital is not an option…“ eða í þýðingu undirritaðs „Ef nýr spítali er ekki valkostur…“ Í meira en 17 ár hefur ekki verið gerð nein vönduð alvöru úttekt á því hvað sé best að gera. Nokkrar hriplekar úttektir hafa verið gerðar, síðast árið 2015 er þáverandi heilbrigðisráðherra pantaði eina á mettíma.

Hefur enginn spáð í hvað hefur breyst á þessum 17 árum? Hver hefur íbúaþróunin verið? Fjölgun ferðamanna? Fjölgun ökutækja? Breyting skipulagsmála? Þróun sjúkrahúsþjónustu? Starfsmannafjöldi spítalans? O.s.frv.

Jú, nokkrir aðilar hafa reynt að benda á þetta og meðal þeirra er læknirinn Vilhjálmur Ari Arason. Vilhjálmur skrifar pistil á eyjuna.is og þar segir ma: „…Yfir 90% höfuðborgabúa búa austan Hringbrautar, ekki í kringum eða vestar og ef frá eru taldir túristar og hótelgestir miðborgar Reykjavíkur. Raunverulegir íbúar, mikið austar, sunnar, norðar og í nágrannabyggðum.

Af hverju í ósköpunum erum við þá að búa til þetta heimatilbúna vandamál með staðsetningu þjóðarspítalans sem aðeins einstakar milljóna höfuðborgir heimsins standa frammi fyrir vegna mikils íbúafjölda og skorts á lóðum? Af öllum þjóðum, á Íslandi?

Algjörlega fyrirséð stórvandamál í aðgengi sjúklinga og starfsfólks að stærsta vinnustað landsins og einni mikilvægustu heilbrigðisöryggisþjónustunni í framtíðinni.“

Höfundur er alþingismaður Miðflokksins fyrir Suðvesturkjördæmi gunnarbragi@althingi.is

Auglýsingar