Formaður Miðflokksins

Sigmundur Davíð neglir plankann!

Miðflokkurinn

Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins og þingmaður NorðAusturkjördæmis

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður og formaður Miðflokksins ritaði pistil í Morgunblaðið s.l. laugardag er bar yfirskriftina „Stóra U-beygjan”. Sigmundur fer þar m.a. yfir það hvers vegna hann hefur barist fyrir því að ríkið nýti forkaupsréttinn að Arion banka og bendir auk þess á hættuna sem stafar af sofandahætti ríkisstjórnarinnar. Sigmundur hittir þar naglann á höfuðið eða öllu heldur neglir plankann eins og sagt er á íþróttamáli.

Stóra U-beygjan

Endurreisn íslensks efnahagslífs hefur gengið vonum framar og vakið mikla athygli. Óhefðbundnum lausnum var beitt á fordæmalausan vanda. Árangurinn kom ekki af sjálfu sér. Hann var afsprengi þrotlausrar baráttu um margra ára skeið. Endurreisninni er hins vegar ekki lokið þar sem fjármálakerfið á eftir að endurskipuleggja. Nú virðist sem stjórnvöld fái litlu ráðið um það verkefni heldur munu erlendir vogunarsjóðir ráða för.

Oft er nefnt að mikil fjölgun ferðamanna hafi bjargað efnahag Íslands. Ferðaþjónusta er gífurlega mikilvæg atvinnugrein og ferðamenn skila gríðarlegum tekjum í ríkissjóð á ýmsan hátt, með virðisaukaskatti, launagjöldum frá greininni, fjárfestingum o.s.frv. En setjum þetta í samhengi við áhrif aðgerðanna sem stjórnvöld réðust í samhliða losun hafta á árunum 2013-2016. Þær voru til þess fallnar að skila u.þ.b. þrjátíuföldu því sem ferðaþjónustan skilar í ríkissjóð. Með öðrum orðum nema áhrif þessara stóru og óhefðbundnu aðgerða á stöðu ríkissjóðs tekjum af ferðaþjónustu í 30 ár. Aðferðin er orðin kennsluefni í erlendum háskólum.

Nú á lokasprettinum blasir hins vegar við algjör u-beygja í því hvernig stjórnvöld nálgast verkefnið. Reyndar var sveigt af leið þegar á seinni hluta árs 2016 þegar horfið var frá tímasettri áætlun um gjaldeyrisútboð. En nú er það Arion banki.

Á sama tíma og ríkisstjórnin áformar að nota gríðarlegt umfram eigið fé Landsbankans og Íslandsbanka í að greiða niður skuldir og byggja upp innviði (hluta af peningunum sem urðu til með því sem 2013 var kallað lýðskrum og loforð um töfrabrögð) er hún að kasta frá sér Arion banka. Hið mikla eigið fé þess banka mun því renna í ávöxtun og bónusa hjá vogunarsjóðum í New York og London (og Reykjavík) en ekki í að treysta innviði Íslands.

Umfram eigið fé Arion banka er svo mikið að fyrir það væri hægt að byggja nýjan Landspítala frá grunni, hratt og vel.

Í stað þess að ríkið leysi til sín bankann (sem það hafði óbeint eignarhald á) er vogunarsjóðum leyft að selja sjálfum sér bankann svo ríkið fái sem minnst fyrir hann. Nú ganga þeir á lagið og vilja virkja ákvæði frá 2009 til að taka af ríkinu þann hluta sem það á þó beint. Ákvæðið var sett í samninga þegar vinstristjórnin afhenti vogunarsjóðum bankana (seinni einkavæðingin). Ný stjórn endurheimti bankana til að verja lífskjör Íslendinga en nú erum við að verða komin í hring með því að ríkisstjórn undir forystu ráðherra úr vinstri stjórninni og þeirra sem hófu viðsnúninginn 2016 afhenda vogunarsjóðunum bankann aftur (þriðja einkavæðingin).

Í ljósi reynslunnar spái ég því hér að viðbrögð ríkisstjórnarinnar, ef þau verða einhver, verði þau að láta skila sér álitsgerðum um hvers vegna ekkert sé hægt að gera í málinu. Nóg var reynt af slíku 2013-2016. Ef „kerfið“ hefði fengið að ráða þá hefði ekkert orðið úr aðgerðunum sem endurreistu efnahag Íslands og gera núverandi ríkisstjórn kleift að auka ríkisútgjöld meira en dæmi eru um. Svo verður líklega skálað í kampavíni.

Höfundur er þingmaður og formaður Miðflokksins.

Auglýsingar