FB síður

Sigmundur Davíð: „Ríkisstjórnin hefur enga stefnu um þróun fjármálakerfisins og sýnir engin viðbrögð við atburðarásinni” – Fyrir umfram-eigið fé Arion banka væri hægt að byggja nýjan Landspítala frá grunni.

Miðflokkurinn

Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins og þingmaður NorðAusturkjördæmis

Ríkisstjórnin hefur enga stefnu um þróun fjármálakerfisins og sýnir engin viðbrögð við atburðarásinni önnur en þau að veita vogunarsjóðunum þá þjónustu sem þeir fara fram á. Næstu skref eru að selja þeim hlut ríkisins í Arion banka og hjálpa til við skráningu bankans á markað.

Á Alþingi í gær spurði ég forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi þróun fjármálakerfisins og hvort stjórnvöld myndu gefa eftir forkaupsrétt ríkisins að hlutabréfum í Arion banka (sem er óbeint í eigu ríkisins að mestu leyti) áður en þau verða skráð á markað eins og vogunarsjóðirnir fara fram á.

Spurði einnig hvort ríkið ætlaði að selja þeim þann hlut sem það á í bankanum beint (13%), en vogunarsjóðirnir eru líka að fara fram á það.

Viðbrögðin komu mér verulega á óvart í ljósi þeirra miklu almannahagsmuna sem liggja í því að stjórnvöld klári það sem lagt var upp með við endurskipulagningu bankakerfisins auk þess sem fjárhagslegir hagsmunir eru gríðarlegir.

Með svörunum var staðfest að ríkisstjórnin hefði enga heildarstefnu um þróun fjármálakerfisins. Engu að síður sagði formaður VG að ríkisstjórnin vildi selja banka, ekki eignast stærri hlut í þeim og fullyrti að ríkið ætti engan forkaupsrétt að hlutabréfum í Arion.

Ef það er enginn forkaupsréttur hvers vegna hafa vogunarsjóðirnir þá verið að fara fram á að ríkið afsali sér forkaupsrétti eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum?

VB-úrklippa

Þetta er ótrúleg yfirlýsing frá forsætisráðherra og til marks um að ríkisstjórnin hafi engin tök á atburðarásinni. Menn geta svo rétt ímyndað sér hvort vogunarsjóðirnir muni ekki taka svona yfirlýsingum fagnandi og telja þær lýsa stefnu stjórnvalda.

Ég tók þetta upp á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag og fór fram á að gögn málsins yrðu birt. Það er brýnt að leiða þetta mál til lykta. Fyrir bara umfram-eigið fé Arion banka væri hægt að byggja nýjan Landspítala frá grunni.

Auglýsingar