Forsíðufréttir

Skrafið: Reynir Þór formaður MFR – „Hitti konuna fyrst á Skalla” – Flugið skipar stóran sess

reynir þór guðmundsson

Viðmælandi Skrafsins þessa vikuna er Reynir Þór Guðmundsson formaður Miðflokksfélags Reykjavíkur, borgarbarn, atvinnuflugmaður, flugvirki, og eiginlega bara flugallt. Reynir er fæddur og uppalinn í Reykjavík, gékk í Hlíðaskóla og fór svo í Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann var með hugann við e-ð allt annað en nám og hætti þar fljótlega og fór út á vinnumarkaðinn.
Reynir heillaðist snemma á sinni ævi af öllu sem við kom flugi enda var faðir hans í flugbransanum. Guðmundur faðir Reynis starfaði sem flugvirki og því skiljanlega mikið rætt um allt sem við kemur flugi á hans æskuheimili í Norðurmýrinni. Á sumrin dvaldist hann oft sem barn og unglingur á Svínafelli við Hornafjörð. Ættir hans telja bæði framsóknar- og sjálfstæðisfólk, bæjarstjóra og þingmenn og síðast en ekki síst fólk sem hefur starfað töluvert í því félagsstarfi sem tengist slíku.

Verkamaðurinn og einkaflugmaðurinn

Eftir að Reynir hafði hætti í Iðnskólanum og verið á vinnumarkaðinum í einhvern tíma lá leið hans í einkaflugmanninn. Einkaflugmannsprófið skiptist í bóklegan hluta sem er inntökuskilyrði fyrir framhaldið og svo verklegan hluta þar sem nemandinn fær þjálfun frá flugkennara.

cirrus

Cirrus vélar

Um það leyti sem Reynir var að læra að fljúga og kominn með einkaflugmannsréttindin þyrsti hann í að verða atvinnuflugmaður, hann þyrsti einnig í annað. Eiginkonu sinni Gretu Björgu kynntist Reynir um þetta leyti. Reynir tók eftir henni er hann var verkamaður og hún í afgreiðslustörfum á Skalla. Þau tvö voru það sem undirritaður kallar „working class heros“ á þessum tíma, hann í bláum samfesting og hún í grænum. Það tók Reyni svo nokkur ár að vinna hug hennar. Um það leyti er hann var við það að hverfa af landi brott í atvinnuflugmannsnám til Tulsa í Oklahoma og hún á leið til Danmerkur, bar þrautseigjan í Reyni svo árangur. Þetta small s.s. allt saman hjá þeim tveim er þau gerðu sér grein fyrir því að aðskilnaður væri ekki í boði.

innskot: Saga þeirra tveggja minnir um margt á sögu formannsins í NorðAustri, þ.e. aðskilnaðarhlutinn og allt í kringum það sem er efni í viðamikla rannsókn a.m.k. á félagsvísindasviði ef ekki fleirum.

Atvinnuflugmaðurinn

Fyrir Reyni var sú ákvörðun að drífa sig til Tulsa í flugvirkja og atvinnuflugmannsnám kjörin leið til þess að sameina áhugamál og framtíðarstarf. Reynir var að mestu einn í Tulsa en Gréta kom þó við og við í heimsókn til hans.

Picture1

Atvinnuflugmönnum þarf að vera margt til lista lagt – myndin er sviðsett

Réttindi til atvinnuflugmanns krefjast mikils náms á stuttum tíma og er oft nefnt að eitt ár í slíku námi jafnist á við tvö í háskólanámi. Inntökuskilyrði eru einnig ströng fyrir frekara nám í atvinnuflugi og þarf viðkomandi umsóknaraðili að vera búinn að klára ákveðið margar einingar í raungreinum til að fá inngöngu. Einnig eru gerðar heilbrigðiskröfur og fylgja allskyns prófanir og rannsóknir á atvinnuflugmanns efni. Læknisskoðun er gerð þar sem tekin eru heilalínurit, jafnvægi prófað, heyrnin athuguð og svo sem betur fer fyrir mig að vita þá er sjónin athuguð. Atvinnuflugmannsréttindin gefa svo viðkomandi aðila leyfi til að starfa við og fá greitt fyrir að fljúga hjá flugrekanda. Þar með er ekki öll námssagan sögð, er störf hefjast og á meðan flugmenn eru starfandi eru endalaus próf og rannsóknir á getu og hæfni flugmannanna. Þegar Reynir kom heim til Íslands eftir nám með flugvirkja- og atvinnuflugmannsskírteini bætti hann við sig íslenskum réttindum. Vitandi það hve Reynir og margir aðrir sem fetað hafa í svipuð fótspor hafa lagt á sig við að ná þessum réttindum þá mun ég í næsta flugi vera sallarólegur þó vélin hristist aðeins.

Flug-allt maðurinn

Reynir og Gréta búa með þrem börnum sínum í Skerjafirðinum að sjálfsögðu. Börnin þrjú, tvær stelpur og einn gutti eru fædd á árabilinu 2000-2007. Elsta barnið er því komið með bílpróf sem þýðir oftast hausverk fyrir foreldra, með nokkrum bílasölusnúningum þar sem Greta losnaði m.a. við gamla notaða bílinn sinn tókst Reyni að redda foreldrahausverknum.

meðfjölsk

Reynir, Greta og börn á flugi

Reynir er í dag eigandi Island Aviation sem er viðhaldsstjórnunarfyrirtæki (CAMO) með leyfi frá samgöngustofu og Þyrlufélagsins Arctic Helicopters. Frá 2016 hefur félagið verið samþykktur þjónustuaðili fyrir Cirrus flugvélar á Íslandi og þjónustar félagið bæði vélar í eigu innlendra og erlendra aðila. Reynir er enn í endalausum þjálfunum og daginn er við vorum að ræða saman hafði hann nýlokið einu námskeiði til að viðhalda þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að halda réttindum sínum á fyrrnefndum sviðum.

Flugsamgöngur á Íslandi

Nú kemur að þeim parti viðtalsins þar sem kolin fara aðeins að hitna en það heyrir til algerra undantekninga að það gerist hjá Reyni sem tilheyrði einu sinni Sjálfstæðisflokknum. Hann hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvað gera skal við Reykjavíkurflugvöll. „Hann á að vera“ segir hann og bætir við að þetta hringl með flugvöllinn skapi óþolandi ástand á vellinum. Mannvirki drabbist niður, kennsluflugið í uppnámi og neyðabrautin lokuð. „Það er eins og fráfarandi borgarstjóri skilji ekki að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna“. Í framhaldi af þessum orðum, þá spyr ég hvernig honum lítist á komandi sveitarstjórnarkosningarnar og hvað megi helst bæta og breyta í höfuðborg allra landsmanna. Reynir segist lítast mjög vel á þær og sér mikil tækifæri í framboði Miðflokksins. Hvað megi breyta og bæta svarar hann stutt og skorinort „öllu“. Hann nefnir sérstaklega samgöngu- og skipulagsmálin og að skólamálin séu í lamasessi. Er við erum að kveðjast þá vill Reynir koma því á framfæri að lokum að hann sé afar glaður og ánægður með fólkið sem starfar í Miðflokknum og hann hefur kynnst þar. Það ríkir kraftur og gleði og honum þykir gaman að sjá hve miðflokksfólk sé tilbúið til að gefa mikið af sér við að hjálpa til og leggja málstaðnum lið. Að þessu sögðu, ljúkum við Reynir samtalinu með kveðju Miðflokksins, sem notuð er við flest tækifæri hvort sem menn heilsast eða kveðjast „Vertu Memm“.

Auglýsingar

1 reply »