Forsíðufréttir

Vilborg Hansen: Sundabraut – ódýrasti kosturinn er ekki alltaf sá besti

vilborg hansen

Vilborg Hansen

Það er athyglisvert nú þegar flokkarnir eru farnir að setja sig í stellingar fyrir næstu borgarstjórnarkosningar að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að halda því fram að innri leið Sundabrautar sé hinn ein sanni kostur í þeim efnum af því hann sé ódýrastur eða um 10 milljörðum ódýrari en ytri leiðin sem hefur verið samþykkt.  Aðeins er horft í kostnaðinn en ekkert í það hvað er skynsamlegt til framtíðar.  Ekkert er hugað að því hvert er hlutverk þessarar brautar, sem er í raun stólpi framtíðarsamgangna inn í höfuðborgina til þess að flytja fólk beint á fjölmenn atvinnusvæði og að miðbænum sem og þungaflutninga.  Sundabrautin er ekki eitthvað gæluverkefni heldur undirstaða þess að samgöngur gangi hratt fyrir sig í framtíðinni inn og út úr höfurðborginni!  Vegagerðin meira að segja lítur svo á að ef vitlausasti kosturinn og ódýrasti er ekki valinn þá skuli borgarbúar einir greiða mismuninn.  Það er þó allt í lagi að borgarbúar taki þátt í að greiða göng víðsvegar um landið og meira að segja göng í „einkaframkvæmd“ og þó framkvæmdin fari marga milljarða fram úr áætlun!   Þessari innri leið á að reyna að troða yfir borgarbúa og það í ósátt við íbúa Grafarvogs, sem er annað stærsta hverfi borgarinnar.  Það vita allir að ódýrasta flíkin sem þú kaupir er ekki endilega sú sem er ódýrust þó verðmiðinn segi það.  Ódýrasta flíkin endist kannski í 6 mánuði á meðan sú sem var aðeins dýrari endist í mörg ár.  Hvor flíkin var þá í raun ódýrari þegar litið er til líftíma?  Gott dæmi til hliðsjónar fyrir þá sem eru að leika sér við að reikna þessa hluti út og nauðsynlegt að setja alla þætti inn í þá jöfnu, ekki gleyma neinu þó niðurstaðan rími ekki við ódýrasta kostinn!

 

Við skulum alveg hafa það á hreinu að Sundabraut gegnir stóru hlutverki í framtíðarsamgöngum höfuðborgarsvæðisins, rétt eins og göng hingað og þangað um landið til þess að stytta leiðir á landsbyggðinni og auka öryggi íbúa.

fr_20150425_013416Staðreyndir málsins eru þær að ef innri leiðin verður farin með Sundabrautina þá mun það beina gríðarlegri umferð beint inn á íbúagötur og út á Sæbraut við Langholtshverfi sem nú þegar annar ekki álagi.  Það þekkja allir röðina og örtröðina sem skapast á Sæbrautinni þegar fólk úr Austurborginni fer í og úr vinnu sinni fyrir utan stórflutninga sem um brautina fara.  Ef þessi innri leið verður farin þá sitjum við uppi með verri umferðaröngþveiti en nú er.  Gleymum því  ekki að síðan bætist Vogabyggðin við og þar verða ekki allir íbúar á hjóli frekar en íbúar Austurborgarinnar almennt, þó svo að sumir sem sitji í 101 Reykjavík og skipuleggi eigi þann draum æðstan.

Framtíðaruppbygging höfuðborgarsvæðisins er síðan Geldinganesið, svæði óbyggð í Grafarvogi, Úlfarsárdal, Mosfellsbæ og allt upp á Álfsnes og Kjalarnes.  Sundabrautin þarf að þjóna höfuðborgarsvæðinu næstu 150 árin og lengur, en ekki næstu 4 árin.  Einhverjir hoppa nú upp og segja að bráðum komi sjálfkeyrandi bílar, en þá verða líka götur borgarinnar að vera orðnar það góðar að slíkir bílar geti keyrt um þær.  Ekki held ég að slíkir bílar fari að keyra um holóttar götur borgarinnar í nánustu framtíð og alveg spurning hvort slíkar bifreiðar henti hérlendis í snjókomu og slæmri færð eða hvað skeður þegar bíllinn festir sig í snjóskafli eða ruðningi sem staðsettur er út á hluta götunnar?  Segir þá Siri bílsins, sorry i‘m stuck, go out and push!

Hlutverk nýrrar Sundabrautar er að liðka til, er að létta á núverandi gatnakerfi og auka öryggi samgangna inn og út úr borginni.  Því er skynsamlegt að fara ytri leiðina og jafnvel enn ytra en nú er gert ráð fyrir og þá göng síðasta hlekkinn, til þess að koma fólki í framtíðarhverfum og núverandi hverfum beint á fjölmenn athafna- og atvinnusvæði t.d. við Borgartún og í miðbæ.  Best væri auðvitað að tengingin væri á svæðinu við Laugarnes/Kirkjusand og þar í kring.   Auðvitað kostar þetta peninga, enda risa mannvirki og stofnæð, en hvað kostar viðhald á gatnakerfi sem ekki ber umferðarþungann sem þar fer um?   Hvað kostar tíminn sem fólk eyðir fast á samgönguæðum borgarinnar nú?  Hvað kostar mengunin frá bílum í hægagangi á heilsu borgarbúa?  Stór umferðarmannvirki kosta peninga og það á ekki að skera við nögl þegar kemur að höfuðborginni sjálfri.  Það eru allir landsmenn sem nýta þær samgöngur sem hér eru ásamt milljónum ferðamanna (ef rétt er talið), sem hingað koma árlega.

Eiga borgarbúar að borga allt fyrir alla en sitja sjálfir eftir með ódýrustu og lélegustu samgöngurnar?  Það er ljóst að Vegagerðin lítur svo á miðað við að telja eðlilegt að borgarbúar borgi mismuninn.  Spurning hvort við eigum að fara út í þá útreikninga á umframkostnaði víðsvegar um land og láta íbúa viðkomandi byggðarlaga borga mismuninn!

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu þann 9.5 2017

Auglýsingar