Forsíðufréttir

Pistill: Orð og efndir – Hvar er fjármögnun aðgerða og áætlana? – Sigurður Páll

siggipalli

Sigurður Páll

Nú þegar tæknin er á fleygiferð og hugmyndir manna um leiðir til að gera lífið og tilveruna hér á Fróni enn betra fyrir okkur eyjaskeggja, eru fjölmörg atriði sem trufla mig. Það atriði sem framar öðrum trufla mig er það hvernig staðið er að fjármögnun aðgerða og áætlana ráðamanna. Margar ákvarðanir, áætlanir og viljayfirlýsingar hafa verið gerðar í gegnum tíðina í góðri trú og meiningu, en þeim fylgir oft afar takmarkað fjármagn.

 

 

 

Aðgerðir í skólamálum þar sem kennarar og starfsmenn skóla kvarta yfir auknu vinnuálagi vegna þess að ekki fylgdi fjármagn með er þekkt. Við þekkjum einnig hvert álagið er á starfsfólk heilbrigðiskerfisins. Einnig var breyting á vinnuumhverfi sýslumanna vanfjármögnuð á sínum tíma og eins hjá lögreglu hringinn í kringum landið. Viljayfirlýsingar sem gefnar hafa verið út, til dæmis um uppbyggingu heilbrigðisstofnana úti á landi með litlu eða engu fjármagni, hafa oft gert illt verra. Samgöngumál okkar eru þannig stödd að það er varla hægt að benda á hvar á að byrja að laga vegina. Allsstaðar eru vegir landsins komnir fram yfir síðasta söludag. Fjármagn til framkvæmda á vegum landsins á yfirstandandi ári er mjög lítið og í þeim málaflokki dróg samgönguráðherra styrsta stráið ef miðað er við fjárframlög til annarra ráðuneyta.

Undanfarin kjörtímabil hafa hallalaus fjárlög með afgangi í ríkissjóð verið meginstefið hjá stjórnvöldum og er það vel. Aftur á móti hefur það bitnað á hinni svokölluðu innviðauppbyggingu eins og sést meðal annars á vegum landsins auk annarra brýnna mála eins og heilbrigðisþjónustu víða um land.

Ráðherra samgöngumála reiknar ekki með nýrri samgönguáætlun til fimm ára fyrr en í haust. Í millitíðinni fara fram bæjar- og sveitastjórnarkosningar. Getur verið að það sé tilviljun að áætlunin komi ekki fyrr en eftir sveitastjórnakosningarnar?

Afhendingaröryggi raforku er einnig mjög ábótavant víða og óskiljanlegt að ekki hafi verið betur að því staðið. Í nýlegri þingsályktunartillagu frá iðnaðarráðherra um raforkuflutninga á landinu, setur ráðherrann afhendingaröryggi í sjöunda sæti sem að ætti að vera í fyrsta sæti.

Það er óásættanlegt að landsbyggðin sé langt á eftir í málum sem nefnast innviðir og er rétt að benda á að í kosningaáherslum Miðflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar var í þeim málefnum mörkuð skýr stefna sem nefnist Ísland allt.

Sigurður Páll Jónsson
Þingmaður fyrir Miðflokkinn í Norðvesturkjördæmi.

 

Auglýsingar