Forsíðufréttir

Skrafið í miðri viku: Viðmælandi Skrafsins er glaðlyndur Eyfirðingur eins orginal og þeir geta verið – Regína Helgadóttir formaður Miðflokksdeildar Akureyrar

Viðmælandi Skrafsins þessa vikuna er Regína Helgadóttir Eyfirðingur, KA-kona, bókari og ofuramma.

11064722_10153567341729544_8127570717975386592_n

Regína leikur háhest


Það stóð til að Skrafið myndi birtast s.l. sunnudag á sjálfan Konudaginn. Undirritaður var þó þjakaður af ferðaþreytu eftir vel heppnaða Vestmannaeyjaför sem verður skrifað um síðar og að auki niðursokkin við störf heima fyrir…það var jú enda Konudagurinn sko. Jæja, þá er maður búinn að réttlæta töfina fyrir sjálfum sér og vonast til þess að lesendur Skrafsins kaupi skýringuna sem mig grunar að þeir geri ekki. Allavega, þá skulum við beina kastljósinu frá skrifara Skrafsins að Regínu Helgadóttur sem er glaðlyndur Eyfirðingur eins orginal og þeir geta verið. Regína sem verður sextug á árinu er fædd og uppalin í Eyjafirðinum og vill hvergi annarsstaðar búa. Við tókum spjall saman fyrir helgi þegar að var þetta fína vetrarveður fyrir norðan, veðurlagið á Akureyri er jafnan svo yfir vetrartímann að þar eru mun meiri stillur og logn en hér fyrir sunnan. Regína segir að þessi vetur hafi verið til friðs að mestu.

Skólagangan og starfsvettvangurinn

Regína gékk í grunnskóla í Hrafnagilshreppi og eftir „gaggóhrafnagils“ flutti Regína til Akureyrar aðeins sextán ára að aldri. Í upphafi stóð það til hjá henni að taka sér aðeins smá frí frá bóklegu skólanámi og fara útá vinnumarkaðinn í stuttan tíma og afla sér smátekna, það frí stendur enn eins og hún komst að orði. Þegar til Akureyrar kom fór hún að vinna fyrir sér í kjötiðnaðarstöð KEA, ekki hafði Regína þó verið lengi að vinna á gólfinu er henni var kippt inn á skrifstofu að vinna við bókhald fyrirtækisins. Bókhaldsvinna endaði svo á verða að lífsviðurværi Regínu.

systkini

Regína með systkynum sínum

Bókarinn, starfsvettvangur Regínu snýst þó ekki eingöngu um debet og kredit líkt og margir gætu haldið, starf bókara er mjög fjölbreytt og felur í sér að sá er við það starfar þarf að hafa þekkingu á margvíslegum sviðum. Þau verkefni sem bókari þarf helst að hafa þekkingu og getu til að leysa eru sem dæmi ársreikningagerð, virðisaukaskattsuppgjör, að kunna skil á lögum og að geta nýtt sér opinbera upplýsingavefi til gagns. Það má heldur ekki  gleyma að nefna að góð þekking á Excel (forriti forritanna), bókhaldi, reikningshaldi og skattalegum atriðum eru nauðsynleg hverjum þeim sem starfar við fagið. Að auki þá fylgir bókarastarfinu að vera einnig í miklum og góðum tengslum við viðskiptavini sína.

Lífið, tilveran og ömmugullin á Akureyri

Í dag býr Regína ein líkt og hún hefur gert nær alla tíð. Það er þó ekki eins og að það sé mikið um dauflegar stundir í lífi Regínu þar sem hún á tvær dætur og þrjú barnabörn. Hún er mikið með barnabörnunum sínum og ver miklum tíma með þeim, skottast m.a. á  íþróttakappleiki með þeim hvort sem er til að fylgjast með þeim að keppa í handbolta eða fótbolta eða fer með þeim á áhorfendapallana að styðja við sitt lið, KA. Regína er ánægð með það að KA hafi slitið sig úr Akureyrar-samstarfinu í handboltanum og farið að spila aftur undir eigin merkjum. Hún segir svo stolt frá afrekum sex ára guttans sem byrjaði að æfa boltaíþróttir einungis þriggja ára gamall og er strax farinn að sýna góða takta enda er víst staðið vel að yngri flokka þjálfuninni hjá KA.

11056537_10153110230744544_2421986218891855471_n

Regína með ömmugullunum

Innskot: Ég velti því fyrir mér á þessum tímapunkti í spjallinu hvort að ég væri genginn í einhvern KA klúbb.

Regína er það sem kallað er „ofuramma“ , líf hennar snýst að mestu um „ömmugullin“ og svo að sjálfsögðu pólitíkina. Hún var áður formaður Framsóknarfélagas Akureyrar, s.s. Akureyrarframsóknarmanneskja en framsóknarfólki í Norðausturkjördæmi hefur oft verið stillt upp sem andstæðum fylkingum í fjölmiðlum sem Akureyrar- og eða Austfjarðarframsóknarfólk, hvað svo sem er til í því.

Regína yfirgaf Framsóknarflokkinn ásamt fjölmörgum öðrum í kjölfar þeirrar ógeðfelldu aðfarar sem að Sigmundur Davíð varð fyrir af hendi þeirra aðila sem oft hafa verið kölluð flokkseigendafélagið í framsókn. Regína tók þátt í að stofna fyrstu Miðflokksdeildina á landsvísu á Akureyri ásamt um sextíu til sjötíu manns sem fóru svo á fullt við að undirbúa og vinna að framboði Miðflokksins fyrir Alþingskosningarnar s.l. haust og voru mjög aktív að sögn Regínu. Skemmst er frá því að segja að Miðflokkurinn vann síðan stórsigur í Norðausturkjördæmi. Sá sigur var ekki eingöngu að þakka gómsætum smurbrauðstertum, heldur þurftu líka allir að leggjast á eitt til að koma út boðskap Miðflokksins í Norðausturkjördæmi. Regínu þykir mjög vænt um hve allir voru tilbúnir til að leggja sig fram í þeirri kosningabaráttu og hvað það hafi kviknað mikið líf í því fólki sem var orðið hundleitt á pólitísku vafstri í framsókn og víðar, en tóku nú gleði sína á ný við að taka þátt í starfi hins nýstofnaða Miðflokks.

Norðlensku ræturnar og hefðirnar

Fortíðin er það sem mótar samtímann stendur einhversstaðar, fortíðin gefur okkur viðmið og þess vegna eru hefðir oftast nær tengdar við það sem liðið er þótt þær séu einnig hluti af nútímanum.  Þegar hlutir eða athafnir tengjast endurtekið tilteknum tækifærum er orðin til hefð. Sem dæmi má nefna mat sem er alltaf hafður á jólunum eða bara bolludagsbollur en það er æði misjafnt hvaða hefðir eiga við á hverjum stað fyrir sig. Það tengja flestir landsmenn við laufabrauðsgerð nyrðra og úldna skötu vestra þegar rætt er um hefðir. Laufabrauðsgerð er t.d. algjörlega ómissandi í jólahaldi Regínu ásamt öðrum furðulegum siðum að mati okkar hér í syðra.

Grillað fyrir ömmu

Ömmugull að grilla…þó ekki laufabrauð

Það að eiga norðlenskar rætur og að búa á Akureyri þá skipa ýmsar hefðir og venjur oft ríkan sess í lífi íbúana á staðnum. Regína er þar engin undantekning en hún segist halda mikið í ríkjandi hefðir og er t.d. nokkuð dugleg við laufabrauðsgerðina í aðdraganda jólahátíðarinnar en segist í dag vera að mestu hætt að baka.

Heimsins bestu smurbrauðstertur voru á borðum kosningaskrifstofunnar á Akureyri sem ein af félögum Regínu í slagnum átti mesta heiðurinn af ásamt öðrum góðum félögum. Regína segist þó einnig kunna að útbúa slíkar og gerir gjarna þegar mikið stendur til heima við. Það virðist vera þannig að félagar í Miðflokknum um land allt kunni allra manna best að útbúa góðar smurbrauðstertur, tertur þessar voru rómaðar á kosningaskrifstofum um allt land og það má með sanni segja að Miðflokkurinn hafi óvænt slegið eign sinni á íslensku Smurbrauðstertuna.

Eftir dágott spjall um heima og geima vorum við Regína sammála því að styrkur þess hóps sem myndar Miðflokkinn og að það sem einkenni hópinn öðru fremur sé samheldni og samkennd. Þar með kvöddumst við með þeim orðum að við finndum til mikillar tilhlökkunar að hitta Miðflokksfólk á Landsþinginu sem haldið verður í apríl.

Auglýsingar