Birgir Þórarinsson

Birgir Þórarinsson: Flétta vogunarsjóða um Arion banka – Hvers vegna vilja þeir kaupa hlut ríkisins? 1. Hluturinn er ódýr 2. Til að geta selt dótturfélögin

Birgir-nýtt

Birgir Þórarinsson, Þingmaður Suðurkjördæmis

Eftirfarandi Pistill Birgis birtist í Mogga í dag laugardag.

Arion banki er verðmætasti bankinn á Íslandi. Hafin er barátta vogunarsjóða um að eignast 13% hlut ríkisins í bankanum. Hvers vegna vilja þeir kaupa hlut ríkisins? Fyrir því eru tvær meginástæður.
Í fyrsta lagi er hluturinn ódýr miðað við hin miklu verðmæti í dótturfélögum bankans, eins og Valitor og Stefni. Stefnir stýrir fjölda verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóða.
Í öðru lagi er nauðsynlegt fyrir vogunarsjóðina að losna við ríkið úr hluthafahópnum, svo hægt sé að búta bankann niður og selja verðmæt dótturfélög hans. Þegar því er svo lokið verða lífeyrissjóðir landsmanna látnir kaupa restina og vogunarsjóðirnir verða með fullar hendur fjár.

Vilja „tæma“ bankann

Verði ríkið áfram hluthafi getur það beitt neitunarvaldi í stjórn bankans, samkvæmt hluthafasamkomulagi hluthafa Arion banka, við áformum vogunarsjóða um að „tæma“ bankann. Flétta vogunarsjóða um eignir bankans hófst á hluthafafundi, sem haldinn var fyrir skömmu. Þar var ákveðið að bankinn myndi kaupa eigin bréf. Í framhaldi var farið fram á að kaupa hlut ríkisins samkvæmt kaupréttarsamningi. Kaup á eigin bréfum gerir að verkum að vogunarsjóðirnir þurfa ekki að taka upp veskið og borga fyrir hlut ríkisins heldur láta þeir bankann sjálfan borga hlutinn.Hvernig verjum við hagsmuni ríkisins í þessu mikilvæga máli? Jú, til eru nokkrar leiðir:

1. Neita að afhenda hlut ríkisins og málið fer fyrir dómstóla.
2. Beita lagasetningarvaldinu, þannig að ef ríkið þarf að selja hlutinn verði það á fullu verði miðað við markaðsvirði bankans alls, þ.m.t. dótturfélaga bankans.
3. Kalla saman auka hluthafafund og krefjast þess að heimild bankans til kaupa á eigin bréfum verði felld úr gildi, vegna vafa um lögmæti hennar.

Óska eftir rannsókn á því hvort bein eða óbein aðkoma vogunarsjóðanna á hluthafafundinum sé í samræmi við ströng skilyrði sem Fjármálaeftirlitið hefur sett til að takmarka heimildir þeirra til að hafa áhrif á starfsemi Arion banka. Óska eftir rannsókn á aðdraganda ákvörðunarinnar og hæfi einstakra stjórnarmanna Arion banka vegna málsins. Yrði sú krafa studd með vísan til 55. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Hlutur ríkisins hindrun í fléttunni

Verði heimild bankans um að kaupa eigin bréf felld úr gildi má telja fullvíst að vogunarsjóðirnir muni hætta við kaupréttinn á bréfum ríkisins, þ.e. þegar þeir þurfa að borga fyrir hann úr eigin vasa. Til að tryggja að vogunarsjóðirnir geti ekki útbúið aðra fléttu, með því að boða síðar til annars fundar og fá aðra heimild, þarf ríkið að eiga áfram hlutinn í Arion banka.Hlutur ríkisins í Arion banka er verðmæt eign almennings, sem ekki á að selja á útsölu. Vogunarsjóðir svífast einskis, þeir hafa færustu sérfræðinga í vinnu við að hagnast sem mest. Stjórnmálamenn verða að sýna staðfestu og djörfung í að verja hagsmuni almennings, horfa á stóru myndina og mega aldrei gefast upp.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: