Anna Kolbrún Árnadóttir

Anna Kolbrún: Sjálfsagt aðgengi – „…ákall er um aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu” – „Eftir stendur spurningin er verið að flækja málin um of, eða er um nauðvörn að ræða?” –

Grein birt í Morgunblaðinu í morgun eftir Önnu Kolbrúnu Árnadóttur

Miðflokkurinn

Anna Kolbrún þingkona Miðflokksins í NorðAustri

Sjálfsagt aðgengi

Það er sama hvert litið er, ákall er um aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Á Alþingi liggja fyrir tvær þingsályktunartillögur sem miða að því að auka aðgengi fólks að sálfræðingum, annars vegar er það ályktun sem ætlað er að tryggja framhaldsskólanemum aðgengi, þeim að kostnaðarlausu, og hins vegar er það ályktun sem tryggir háskólanemum aðgengi að sálfræðiþjónustu.

Í rauninni ætti þetta ákall ekki að koma á óvart þar sem kostnaður vegna sálfræðiþjónustu fullorðinna er áfram undanskilinn almennri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og getur verið mjög mikill. Algengt er að hver meðferðartími hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi kosti á bilinu 12.000 – 15.000 krónur.

Nú þegar hafa nokkrir framhaldsskólar brugðist við ákallinu og kaupa þjónustuna af einkaaðilum eða ráða sálfræðinga inn í skólana. Samkvæmt skýrslu Menntamálastofnunar um brotthvarf í framhaldsskólum réðu tveir skólar sálfræðing í hálft starf og þar mælist árangurinn af því jákvæður. Nú er svo komið að ráðherrar heilbrigðis- og menntamála hafa boðað samvinnu í málaflokknum enda má segja að líf liggi við.

En það er hægt að gera betur. Í Sálfræðingafélagi Íslands eru um 550 sálfræðingar í ýmsum störfum og á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands má sjá að aðeins sjö sálfræðingar eru með rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands, sex þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu og einn á landsbyggðinni. Það hefur komið skýrt fram að auka eigi geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar en þrátt fyrir það þá virðist ganga hægt að fjölga stöðugildum til þess að anna eftirspurn. Biðlistar eru langir og hefur starfsfólk heilsugæslunnar bent einstaklingum sem þurfa á þjónustunni að halda á sjálfstætt starfandi aðila.

Samt er sagt að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu eigi að vera jafnsjálfsagt og aðgengi að annarri heilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar. Væntanlega verður fólk áfram að bíða eftir nauðsynlegum úrbótum þar sem heilsugæslustöðvar landsins geta rétt svo haldið sjó þó svo að þær reyni að forgangsraða málum. Eftir stendur spurningin er verið að flækja málin um of, eða er um nauðvörn að ræða? Getur verið að réttast sé að breyta regluverkinu þannig að öll heilbrigðisþjónusta verði felld undir Sjúkratryggingar Íslands, líka sálfræðiþjónusta? Þá geti allir sótt sér viðunandi og sjálfsagða aðstoð án þess að vera í framhalds- eða háskólanámi.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: