Forsíðufréttir

Anna Kolbrún: Tökum á móti öllum – „Í dag er staðan sú að búið er að setja þetta góða og mikilvæga starf [Hugarafls] í uppnám, samvinna sem hefur gengið vel undanfarin 15 ár.”

Miðflokkurinn

Anna Kolbrún þingkona Miðflokksins í NorðAustri

Það er gott til þess að hugsa að heilbrigðisráðherra ætlar í geðheilbrigðisáætlun að leggja sérstaka áherslu á stuðning við frjáls félagasamtök sem starfa á sviði geðheilbrigðisþjónustu, enda gegni þau lykilhlutverki á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Ég vona að heilbrigðisráðherra standi við þessi orð og tryggi áframhaldandi samvinnu frjálsra félagasamtaka og hins opinbera. Það er nefnilega þannig að fyrir aðeins nokkrum misserum síðan eða í ágúst 2017 var undirritaður samningur sem átti veita Hugarafli sem eru frjáls félagasamtök frekari möguleika að styrkja og styðja við einstaklinga sem koma meðal annars í gegnum Vinnumálastofnun, einstaklingar sem oftar en ekki er ungt fólk, sem átti á þáverandi tímapunkti að njóta faglegar ráðgjafar á vegum Hugarafls.

hugarafl-logo-2Þessi samningur var einnig sérstakur að því leyti að hann tryggði stuðning við þá sem ekki uppfylltu sett skilyrði hjá öðrum endurhæfingaraðilum. Þetta er allt gott og vel. Það sem svo skekkir myndina er að Hugarafl hefur unnið náið með Geðheilsu – eftirfylgd en það er samfélagsleg geðþjónusta sem byggir á valdeflingu og jafningjastuðningi. Samvinna þeirra hefur verið með þeim hætti að litið er á hana sem órjúfanlega heild enda rímar vel saman fagmennska og mannelska í þeirri nálgun sem Hugarafl og Geðheilsa – eftirfylgd hafa veitt.

Í dag er staðan sú að búið er að setja þetta góða og mikilvæga starf í uppnám, samvinna sem hefur gengið vel undanfarin 15 ár. Draga á Hugarafl inn í mótað umhverfi heilsugæslunnar og það er svo heilsugæslan sem ákveður að ekki sé þörf fyrir Geðheilsu – eftirfylgd í því módeli sem heilsugæslan ætlar að vinna eftir. Þetta er mjög sérstök ákvörðun þar sem afar margir einstaklingar hafa sótt þjónustuna og við vitum að hver og einn einstaklingur skiptir máli en með þessu er beinlínis stuðlað að óöryggi og sársauka fjölda fólks.

Þetta er mjög sérstakt þar sem á sama tíma er verið að innleiða notendastýrða persónulega þjónustu (NPA), þar sem einstaklingarnir sjálfir fá réttilega tækifæri til þess að stýra eigin lífi, að þá sé verið að kippa úr sambandi valdeflandi og vel virku starfi Geðheilsu – eftirfylgd. Það er líka mjög ámælisvert að nú þegar það blasir við öllum sem vilja sjá að grafalvarleg staða er í geðheilbrigðismálum og því hlýtur það að vera okkar fyrsta verk að taka á móti öllum þeim sem vilja vinna að bættri stöðu í geðheilbrigðismálum.

Auglýsingar