Forsíðufréttir

Nýr spítali á nýjum stað – Stefna Miðflokksins í Reykjavík – Vilborg Hansen

RN-5.-Vilborg-Hanssen-010169-4299-1

Vilborg

Vífilstaðir eða Keldur/Keldnaholt? Stefna Miðflokksins er að byggja nýjan spítala á nýjum stað og hafa bæði Vífilsstaðir og Keldur/Keldnaholt verið nefndir í því samhengi.

Upphafleg staðarvalsgreining sem gerð var af erlendum sérfræðingum og stungið var undir stól, miðaðist við Fossvog og Keldur/Keldnaholt. Síðan þá hefur önnur uppbygging og lóðaúthlutun í Fossvogi komið í veg fyrir þá staðsetningu til framtíðar.

Besta mögulega staðsetning fyrir spítalann er við Keldur/Keldnaholt með gatnakerfi til allra átta. Hægt væri að byggja hratt og vel upp og spítalinn og tengd starfsemi gæti þróast til framtíðar ásamt því sem auðvelt yrði að byggja upp aðstöðu fyrir þyrluflug til og frá svæðinu. Í næsta nágrenni spítalans yrðu svo skipulagðar lóðir fyrir hjúkrunar-og dvalarheimili ásamt hentugum íbúðum og þjónustuíbúðum fyrir 60+ með lyftu og bílskýli. Falleg náttúra er í kringum svæðið og stutt í golf, sund og fallegar gönguleiðir ásamt verslun og þjónustu. Þjónusta við íbúa kæmist þarna vel fyrir ásamt heilsugæslu og fleiru.

Mikilvægi þess að byggja hratt og vel upp hjúkrunar- og dvalarheimili er tvíþætt. Annars vegar vinnur það með fráflæðivanda spítalans þar sem fólk sem ekki kemst inn á viðeigandi stofnanir er fast á spítalanum. Hins vegar þegar þessi hópur er kominn í skjól á hjúkrunar- eða dvalarheimili losnar fjöldi íbúða inn á markaðinn fyrir yngri kynslóðina en eðlilegt er að endurnýjun verði í hverfum borgarinnar. Hverfi þróast eðlilega þannig að fyrst eru þau ung en síðan eldast þau eftir því sem íbúar eldast og þá þarf að vera nægilegt magn af hjúkrunar- og dvalarheimilum og almennt húsnæði með lyftu og bílskýli sem hentar fyrir þennan hóp þannig að hann geti verið sem lengst heima.

vilborg-mynd

Grafarvogur er eitt stærsta hverfi borgarinnar en hverfið er tekið að eldast. Mjög lítið af húsnæði með lyftu og bílskýli ,sem hentar fyrir eldri kynslóðina, hefur verið byggt í hverfinu miðað við íbúafjölda, en það hamlar því að þar losni eldra húsnæði eins og raðhús, parhús og einbýli. Einungis hefur verið byggt upp húsnæði með lyftu og bílskýli við Sóleyjarrima en síðan er eitt fjölbýli við Breiðuvík með lyftu og annað við Veghús og þrjú í Staðarhverfi með lyftu og bílskýli. Þetta er hvergi nærri nóg.

Hverfið í Grafarholti- og Úlfarsárdal er enn mjög ungt hverfi og enn í uppbyggingu en þar fer bráðlega að fjölga íbúum af eldri kynslóðinni. Þar er nægt húsnæði með lyftu og bílskýli en þar eru til að mynda engar þjónustuíbúðir fyrir aldraða.

Mikilvægt er að byggja nýjan spítala á nýjum stað en allar helstu forsendur fyrir staðarvali við Hringraut eru nú brostnar eftir þrengingar að umferð á undanförnum árum og ekki hefur komið til þess að byggð hafi verið mislæg gatnamót í austurátt sem og göng fyrir umferð að svæðinu. Nú er svo komið að veruleg hætta stafar af umferðarþunga á umferðaræðum að spítalanum sem gerir það að verkum að erfitt er fyrir fólk að komast með hraði á spítalann úr Austurborginni sem og nærliggjandi sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðin. Spítalinn þjónar ekki bara Vesturborginni heldur öllu höfuðborgarsvæðinu sem og landsbyggðinni. Staðsetning við Keldur/Keldnaholt er ákjósanleg ekki bara vegna umhverfisins og landsvæðisins sem þar er laust, heldur einnig vegna umferðarmannvirkja og aðkomu sem þar er og aðstæðna. Segja má að auðvelt aðgengi sé að svæðinu hvaðan sem komið er að því. Það mundi einnig minnka mikið umferðarþungann í borginni að staðsetja spítalann við Keldur/Keldnaholt og í raun snúa við miklum hluta hennar og minnka þannig álag. Núverandi hugmynd við Hringbraut gerir ráð fyrir að nýta núverandi byggingar sem eru sýktar myglu og bakteríum og það er ekki boðlegt fyrir þjóð sem hefur ekkert annað val. Hugmyndir um borgarlínu setja einnig strik í reikninginn en ljóst er að umferðarþungi að spítalanum verður enn meiri með þeirri uppbyggingu ef af verður. Áætlað er nú að sameina Fossvog við Hringbraut en þá verða starfsmenn tæplega 3.000 sem vinna á daginn frá kl. 8-16 en aðeins er gert ráð fyrir 1.700 bílastæðum við hinn nýja spítala við Hringbraut. Það er hvergi nærri nóg hvort sem litið er til þess hvernig starfsmenn koma til vinnu eða þegar litið er til allra þeirra sem koma á spítalann í allskyns rannsóknir og meðferðir á degi hverjum sem og gestir og aðstandendur sjúklinga.

Miðflokkurinn í Reykjavík leggur höfuðáherslu á að skipuleggja nýja staðsetningu fyrir spítalann við Keldur/Keldnaholt og uppbyggingu hjúkrunar- og elliheimila ásamt hverfis fyrir eldri borgara ef hann fær til þess umboð í borgarstjórnarkosningunum í vor. Keldur hafa fyrir löngu sannað gildi sitt fyrir heilbrigðisþjónustu en Sjúkrahúsið Vogur hefur verið staðsett við voginn í Keldnalandinu um langt árabil með mjög góðum árangri. Þau óskiljanlegu rök, sem eru notuð í umræðunni að nýtt staðarval fyrir nýjan spítala fresti uppbyggingu hans um 10-15 ár, eru markleysa. Það tók innan við ár að byggja nýja álmu við Sjúkrahúsið Vog enda landrými þar nægt og aðgengi fyrir uppbyggingu gott. Miðflokkurinn í Reykjavík leggur þunga áherslu á að nýr spítali verði áfram í Reykjavík og hvetur önnur sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur að koma með sínar tillögur og rök um uppbyggingu nýs spítala innan þeirra sveitarfélaga s.s. á Vífilsstöðum.

Vilborg G. Hansen er íbúi í Grafarholti og skipar 2.sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum

Auglýsingar