Formaður Miðflokksins

Sigmundur Davíð: „Ég óska sjálfstæðismönnum til hamingju með breytta ályktun landsfundar um Landspítalann.”

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins óskaði sjálfstæðismönnum í morgun til hamingju með að hafa breytt tillögu sem lá fyrir landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir helgi – það var skynsamlegt af sjálfstæðismönnum.

Sigmundur-áramótaávarp-2

Ég óska sjálfstæðismönnum til hamingju með breytta ályktun landsfundar um Landspítalann.

Nú er hægt að gera góða hluti. Verðum bara að vona að þingmenn flokksins líti ekki fram hjá þessu eða reyni að endurtúlka það.

Landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins lítur nú svona út:

landspitali-xD

Áður hafði formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð sent frá sér eftirfarandi brýningu til sjálfstæðismanna:

Miklar vonir eru bundnar við að landsfundur Sjálfstæðisflokksins ákveði að skoða áform um byggingu nýs Landspítala með opnum huga og út frá fyrirliggjandi staðreyndum.

Ég hef því miklar áhyggjur af hreint ótrúlegri tillögu málefnanefndar flokksins um spítalann.

Annar stjórnarflokkur, Framsóknarflokkurinn, setti byggingu nýs Landspítala á nýjum stað á oddinn í tvennum kosningum og boðaði meira að segja til blaðamannafundar með Samtökum um betri spítala á betri stað.

Kosningaloforðið var svo gefið eftir áður en stjórnarmyndunarviðræður hófust. Í staðinn var farið að boða furðulegustu stefnu sem ég hafði heyrt í málefnum spítalans …þar til nú.

Hún gekk út á að það ætti að klára að byggja spítalann við Hringbraut en byrja strax að leita að lóð fyrir nýjan spítala. Þar með voru síðustu rökin fyrir Hringbrautarframkvæmdinni fokin út í veður og vind.

Hin dýra og flókna framkvæmd hafði verið réttlætt með því að ef gömlu húsin yrðu nýtt og byggt við þau næstu árin og áratugina væri komin lausn til framtíðar (fram eftir öldinni). Þau rök eru farin, eins og öll hin, þegar menn tala fyrir því að klára mistökin við Hringbraut á þeim forsendum að það sé bráðabirgðalausn.

En í drögum að stefnu Sjálfstæðisflokksins birtist nú tillaga sem toppar þetta.

Tillagan gengur út á að klára mistökin við Hringbraut og hefja á sama tíma byggingu einkaspítala á nýjum stað [sjá tillöguna hér að neðan].

Þá verður bílastæðalausa steinsteypukassþyrpingin á umferðareyjunni við Hringbraut fyrir hina tekjulægri en nýr og flottur spítali á besta stað fyrir þá sem hafa efni á því.

Á hvorum staðnum ætli færasta heilbrigðisstarfsfólkið muni frekar vilja vinna?

Nú biðla ég til sjálfstæðismanna að fella þessa tillögu og taka þátt í að finna besta staðinn fyrir glæsilegt nýtt þjóðarsjúkrahús þar sem allir landsmenn geta notið bestu mögulegu þjónustu við bestu mögulegar aðstæður.

Landsfundartillagan:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að efla Landspítalaháskólasjúkrahús við Hringbraut með áframhaldandi uppbyggingu og bættri aðstöðu. Skipa þarf sérstaka stjórn yfir LSH til stuðnings við stjórnendur og eftirfylgni með eigendastefnu spítalans.

Samhliða uppbyggingu Landspítala verði aðferðir við fjármögnun og rekstur sjúkrahúsa endurskoðaðar. Strax þarf að huga að staðarvali fyrir byggingu annars spítala á nýjum stað með breyttu rekstrarformi og annarri stjórn en háskólasjúkrahúsið. Þannig verði horft til nýrra og breyttra þarfa, fleiri valkosta fyrir starfsmenn og sjúklinga og hugsanlega annars konar sérhæfingu á næstu áratugum.”

 

Auglýsingar