Forsíðufréttir

Tómas Ellert: Nýjan Landspítala nær landsbyggðinni – „Ef skoðuð er loftmynd af höfuðborgarsvæðinu, sést vel hve galið það er að ætla að klastra nýbyggingum við hlið úr sér genginna bygginga við Hringbraut.”

tomas ellert tomasson-minni

Tómas Ellert

Grein birt í Morgunblaðinu 24. mars 2018.
Fjöldi sérfróðra aðila ásamt þingflokki Miðflokksins hefur að undanförnu óskað eftir því við stjórnvöld að unnin verði óháð staðarvalsgreining á nýjum Landspítala. Í greinargerð Miðflokksins um tillögu til þingsályktunar kemur m.a. fram að: „Á árunum 2001–2008 skrifuðu íslenskir og erlendir sérfræðingar fjölmargar álitsgerðir og í flestöllum var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað.

Ástæða þessa að þingflokkur Miðflokksins leggur þessa þingsályktunartillögu fram er mjög einföld – það eru hreinlega mistök að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut!

Af hverju eru það mistök? – Það hefur verið bent á það og stutt með fullgildum rökum að með tilliti til byggingarhraða; fjárhags-, gæða-, samgöngu-, framkvæmda-, umferðar- og öryggismála, að þá sé réttast að byggja nýjan landspítala austar í Reykjavík og þá í Keldnaholti, í Víðidal eða jafnvel að byggja hann í öðru sveitarfélagi, á Vífilstöðum.

Staðarvalið

Við staðarval á nýjum  Landspítala þarf að taka tillit til margra þátta og horfa þarf m.a. til: byggðaþróunar til langs tíma litið, áhrifa umhverfis og húsnæðis á líðan sjúklinga og starfsfólks og hversu aðgengilegir staðirnir eru m.t.t. bráðaflutninga með sjúkrabílum og þyrlum þar sem mannslíf eru í húfi, en ekki krónur og aurar.

Ef skoðuð er loftmynd af höfuðborgarsvæðinu, sést vel hve galið það er að ætla að klastra nýbyggingum við hlið úr sér genginna bygginga við Hringbraut. Þungamiðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu er í dag á miðjum fótboltavelli, Kópavogsmegin í Fossvogsdalnum og er að færast austar og sunnar; þ.e. að fjarlægjast Hringbraut. Að auki þá býr aðeins 7-8% þjóðarinnar á skaganum vestan við Hringbraut í póstnúmerum 101, 107 og 170.

Aðgengi landsbyggðar

Fjölmennustu byggðarkjarnarnir í námunda við höfuðborgarsvæðið eru Akranes, Reykjanesbær og Selfoss. Fólk með króníska sjúkdóma s.s. tauga-, hjarta- og æðasjúkdóma er einnig að finna á þessum stöðum. Þetta fólk þarf reglulega að nýta sér sérfræðiþjónustu á Landspítala og víðar um höfuðborgina. Það má einnig nefna það, svona til að benda aftur á það augljósa, að á þessum stöðum geta einnig komið upp bráðatilfelli hvar flytja þarf sjúklinga með hraði á Landspítalann til aðhlynningar – vegna þess að ekki er hægt að hlúa að fólki í sinni heimabyggð er slík tilfelli koma upp.

Það tekur um og yfir 30 mínútur að aka frá þessum bæjum um gatslitna og úr sér gengna þjóðvegina að jaðri höfuðborgarinnar. Hvað tekur svo við? – það sem tekur við er umferðarteppa. Alþjóð er vel kunnugt um bágt ástand samgöngukerfisins í Reykjavík og þarf ekki að fjölyrða meira um það hér. Ferðatími gesta, sjúklinga og annarra íbúa nágrannabæja höfuðborgarinnar sem eiga erindi á Landspítalann við Hringbraut getur hæglega tvöfaldast við að lenda í þeirri teppu.

landspitali notaður-2

Skynsamlegasta staðsetningin

Skynsamlegasta staðsetningin fyrir nýjan Landspítala er þar sem mest nálægð er við hvert þungamiðja búsetu höfuðborgarsvæðisins er að stefna og samgönguásar Vesturlands, Suðurlands, Reykjaness og höfuðborgar mætast þ.e. í Keldnaholti, í Víðidal eða á Vífilstöðum. – Verum skynsöm og byggjum nýjan Landspítala nær landsbyggðinni.

Tómas Ellert Tómasson, verkfræðingur og oddviti framboðs Miðflokksins í Árborg.

ellert-moggi

Auglýsingar