Forsíðufréttir

Sveinn Hjörtur: Dramb borgarstjóra á Höfða – „Í stuttu máli er Höfði í algjörri niðurnýslu og og viðhald er ekkert”

sveinnhjörtur

Sveinn Hjörtur – skipar 3. sæti Miðflokksins í Reykjavík

Reykjavíkurborg er borgin okkar. Hún er höfuðborg landsmanna, allra íslendinga og allir eiga að njóta höfuðborgarinnar. Borgin hefur að geyma metnaðarfulla einstaklinga sem þykir vænt um borgina sína. En dramb fráfarandi borgarstjóra er orðið fyrir löngu ljóst og við vitum um ótal dæmi eins og óhreinar og skemmdar götur, gangstíga sem eru illa hirtir, húsakynni sem eru í eigu borgarinnar sem eru að skemmast vegna viðhalds- og hirðuleysis. Dæmi um hirðuleysið er Höfði við Borgartún.

Saga Höfða þekkja margir en það var byggt árið 1909, þar sem franski konsúllinn Jean-Paul Brillouin átti upprunalega aðsetur þar. Á næsta ári 2019 mun Höfði verða 110 ára. Saga Höfða hefur einnig að geyma einn merkilegasta leiðtogafund heims, þegar Íslandsfundurinn á milli Ronalds Reagan og Mikhaíls Gorbatsjev átti sér stað þar 1986. Fyrir tilstilli þáverandi sendiherra Bandaríkjanna herra Nicholas Ruwe sem var sendiherra frá 1985 til 1989 tókst Ísland á við eitt stærsta verkefni sem hægt er að gera – skipuleggja leiðtogafund milli tveggja stórvelda. Okkur tókst að skila verkefninu með algjörum sóma svo eftir var tekið. Á lóðinni við Höfða er minningarlundur frá Nicholas Ruwe um þakklæti þjóðar sinnar til og handa íslendingum. Skjöldurinn er falin í illgresi og lundurinn ekki verið hirtur í mörg ár.

hofdi

Höfði er skráð sem móttökuhús borgarstjórnar Reykjavíkur. Borgarstjóri heldur veislur og er með viðburði í húsinu. Í stuttu máli er afar dapurlegt að sjá þá ömurlegu staðreynd um metnað borgarstjóra í garð Höfða, sögunnar, þeirra sem komu að leiðtogafundinum árið 1986, umhverfi Höfða og ekki síst gagnvart borgarbúum og ferðamönnum.

Húsið þarfnast viðhalds strax, garðbekkir eru ryðgaðir og ekkert viðhald er á þeim, fánastangir komnar á viðhald, gluggar eru að skemmast og málning að flagna af og þarfnast tafarlaust viðhalds. Umhverfi Höfða er sóðalegt, hruninn hleðsluveggur sem stafar hætta af, járnrör standa uppúr lóðinni og valda slysahættu, tún niðurkeyrð af ágangi, og lóðin illa hirt. Hætt er að lýsa húsið upp á næturtíma og ásýnd þess er döpur. Í stuttu máli er Höfði í algjörri niðurnýslu og og viðhald er ekkert. Borgarstjóri tryggir það bara að hægt sé að halda veislu, en tekur ekki til eftir sig og sýnir mestu skömm!

Miðflokkurinn í Reykjavík ætlar að sjá til þess að Höfði fái virðingu sína á ný og húsið verði eitt af prýðum borgarinnar og á 110 ára afmæli þess verði allir landsmenn stoltir af því að eiga sanna hluttekningu í Höfða, sögunni og þeim afrekum sem áttu sér stað árið 1986.

Höfði mun verða okkar allra

Auglýsingar