Forsíðufréttir

Solveig Pálmadóttir: Hreppaflutningar – Aldrei aftur!

aRBORG-SOLVEIG PALMADOTTIR - 3. SÆTI

Solveig Pálmadóttir – Skipar 3. sæti á M-lista Miðflokksins í Árborg.

,,Sá sem hefur heyrt gamalmenni gráta mun ekki gleyma því síðan. Aungvir gráta jafnsáran; grátur gamalla manna er sá eini sanni grátur“. Halldór Laxness – Heimsljós.

Vanvirðandi meðferð á öldruðum brýtur gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Mikilvægt er að hlúa vel að þeim sem skilað hafa sínu ævistarfi og ætti það velferðarþjóðfélag sem íslendingar búa við að setja það þegar í forgang að gera öldruðum kleift að lifa sín síðustu ár með reisn. Þeir eiga að fá að halda sjálfstæði sínu þar til yfir lýkur og við góða aðhlynningu í tryggu öryggi, í nálægð við ástvini sína.

Skortur á hjúkrunarrýmum er grafalvarlegt mál og er ófremdarástand sem ekki á að fyrirfinnast á Íslandi. Langir biðlistar aldraðra af sjúkrahúsum inn á hjúkrunarheimili valda því að margir hverjir lifa það ekki af að komast inn á hjúkrunarheimili. Þennan vanda þarf að leysa og það skjótt.

Bæjarstjórn Árborgar brást öldruðum íbúum sveitarfélagsins

Árin 2016 og 2017 fækkaði hjúkrunarrýmum í Árnessýslu um 40 rými með lokun Blesastaða á Skeiðum og Kumbaravogi á Stokkseyri. Við þær lokanir skapaðist algjört ófremdarástand. Flytja varð heimilisfólk út um allar sveitir, allt austur í Vík í Mýrdal, langt í burtu frá ástvinum og fjölskyldu. Þessir hreppaflutningar hefðu aldrei átt að eiga sér stað.

Í máli Kumbaravogs brugðust bæjarfulltrúar Árborgar öldruðum íbúum sveitarfélagsins í stað þess að berjast fyrir sjálfsögðum rétti þess við ríkisvaldið og eftirlitsstofnanir uns viðunandi lausn fyndist á húsnæðismálum þess. Það er ekki viðunandi lausn að flytja aldrað fólk hreppaflutningum.

Þörf er á fleiri en 60 nýjum hjúkrunarrýmum á Selfossi

Þjóðin er að eldast samfara fullkomnari heilbrigðisþjónustu og framförum í læknavísindum. Í Sveitarfélaginu Árborg hefur íbúum 67 ára og eldri fjölgað um ríflega 200 manns á s.l. fjórum árum. Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hefur kallað eftir því að nýtt hjúkrunarheimili sem rísa mun á Selfossi hafi stækkunarmöguleika upp í 80-90 hjúkrunarrými.  Í dag hafa þar einungis verið samþykkt rými fyrir 60manns.

Við ætlum að þrýsta á ríkisvaldið að flýta fjölgun hjúkrunarrýma í Árborg – hreppaflutningar eiga að heyra sögunni til!

Merkjum x við M á kjördag fyrir upphaf nýrra tíma í Árborg!

Solveig Pálmadóttir
Skipar 3. sæti á M-lista Miðflokksins í Árborg.

Greinin birtist í Suðra 17.maí 2018

Auglýsingar