alþingi

Karl Lilj­en­dal Hólm­geirs­son varaþingmaður Miðflokksins sá yngsti frá upphafi til að taka sæti á Alþingi

Karllilliendal

Karl Lilj­en­dal Hólm­geirs­son, varaþingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi

Karl Lilj­en­dal Hólm­geirs­son varð á dögunum yngsti þingmaðurinn sem tekur sæti á Alþingi. Karl var einungis 20 ára og 355 daga gamall og er í námi við VMA.  Karl er barnabarn elsta þingmannsins frá upphafi, Sigrúnu Magnúsdóttur. Forsíðufréttir óska Karli til hamingju 🙂

karlliljendal2
Karl með mömmu og ömmu á Alþingi

Jómfrúarræða Karls:

Virðulegi forseti. Mikið er ánægjulegt að stíga í pontu og flytja mína fyrstu ræðu á Alþingi sem yngsti þingmaður Íslandssögunnar. Ég ætla því að snúa ræðu minni að menntun á háskólastigi og taka sérstaklega tillit til Háskólans á Akureyri. Staðreyndin er sú að aðsókn í Háskólann á Akureyri hefur aukist gífurlega mikið og er því að þakka sveigjanlegt nám sem nær til allra landsmanna þar sem aukið gerir skólasókn auðveldari og skilvirkari fyrir þá sem búsettir eru á landsbyggðinni.

Alls eru 2.074 nemendur við nám í HA en þar af eru 69% nemenda í sveigjanlegu námi. Það sem er enn þá mikilvægara en þessar frábæru fréttir um metaðsókn í Háskólann á Akureyri er meiri umfjöllun um mikilvægi iðn- og tæknináms og eru vonandi flestir sammála um að auka þurfi vægi námsins á öllum skólastigum. Sérstaklega tel ég að það nýtist best með betri innleiðingu iðn- og tæknináms á fyrri stigum grunnskóla. Það getur hjálpað ungum krökkum sérstaklega til aukins áhuga á slíku námi og fengið hærra gildi í samfélaginu.

Háskólinn á Akureyri ætlar að leggja sitt af mörkum hvað þetta varðar en í stefnuskrá skólans, sem gildir til ársins 2023, er áætlað að bjóða upp á nám í tæknifræði. Fram kemur að auka eigi námsframboð sem nái lengra til breiðari hóps nemenda sem og tekur sérstaklega tillit til þarfa atvinnulífsins þar sem skortur er á nemendum í iðn- og tækninámi.

Fyrir stuttu komu fram tölur um þá sem ljúka sveinsprófum og hefur þeim fækkað um 35% undanfarin ár. Einnig er vert að benda á að samstarf milli Háskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri opnar mögulega nýja möguleika um samstarf skólanna ef vel gengur og tæknifræðin verður að möguleika sem allt stefnir í. Það gerir iðn- og tækninám miklu aðgengilegra almenningi sem landið allt þarf gífurlega á að halda á þessum tímum. Því er afar brýnt að ríkið standi þétt við bak skólans með fjárveitingum sem geri honum kleift að standa undir því mikilvæga hlutverki sem hann gegnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Auglýsingar