Birgir Þórarinsson

Birgir Þórarinsson: Berskjaldaður ráðherra – „[fjármála] Ráðherra er berskjaldaður gegn þeirri staðreynd að hafa gefið eftir í hagsmunagæslu ríkissjóðs gagnvart vogunarsjóðum.”

Birgir-nýtt

Birgir Þórarinsson, Þingmaður Suðurkjördæmis

Sérhver er sannleikanum sárreiðastur. Þetta gamla orðtæki sannaðist í þingsal Alþingis fyrir skömmu þegar sá sem þetta ritar spurði fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, í óundirbúnum fyrirspurnatíma.  Spurði ég ráðherrann hvað ríkissjóður hafi fengið fyrir að afsala sér forkaupsrétti á hlutabréfum Kaupþings í Arion banka.

Ófær um að svara gagnrýni

Fyrirspurnin var einföld og ekki flókið fyrir ráðherra að svara. Benti ég ráðherra jafnframt á að ríkisstjórnin hafi viðhaft undirlátssemi í samskiptum sínum við vogunarsjóðina í Arion banka. Rökstuddi ég málið með þremur staðreyndum:

Í fyrsta lagi voru hlutabréf ríkisins í bankanum seld á undirverði. Gaf ríkið þar með eftir tak sem það hafði á bankanum og áhrif á endurskipulagningu hans.
Í öðru lagi var bankaskatturinn lækkaður.
Í þriðja lagi afsalaði ríkið sér forkaupsrétti á hlutabréfum í bankanum.

Ráðherra brást hinn versti við og fór í manninn en ekki boltann, eins og sagt er. Sakaði hann undirritaðan um að hafa enga þekkingu á málinu og standa berskjaldaðan í ræðustól Alþingis. Viðbrögð ráðherrans voru ótrúleg og sýna, svo ekki verður um villst, að þar talaði rökþrota og pirraður maður. Gangrýnin truflaði ráðherra mjög og var hann ófær um að svara henni með málefnalegum hætti.

Arion banki seldur ódýrt – ríkissjóður tapar

Ráðherra viðurkenndi að ríkissjóður fengi ekkert fyrir að afsala sér forkaupsrétti. Þetta sætti ríkisstjórnin sig við mótbárulaust, eins og annað sem vogunarsjóðirnir hafa farið fram á.

Forkaupsrétturinn er verðmætur og hann átti ekki að gefa eftir nema til kæmi sérstök greiðsla til ríkisins. Rétturinn er trygging ríkisins fyrir því að ríkið geti gengið inn í kaupin ef verið er að selja hlutina of ódýrt. Hann virkjast ef selt er undir 0,8 af bókfærðu eigin fé. Capacent og IFS hafa metið hlutinn á 0,94. Fjárfestar fá hins vegar að kaupa á umtalsvert lægra verði eða 0,6 – 0,7. Almenningi stendur það ekki til boða.
Einfalt dæmi; þeir sem fá að kaupa á genginu 0,6 eru í reynd að borga 600 kr fyrir hverjar 1000 kr.

Það er augljóst að verið er að selja bankann ódýrt og það er slæmt fyrir ríkissjóð. Verð bréfanna hefur áhrif á afkomuskiptasamning Kaupþings og ríkissjóðs. Því hærra verð sem bankinn selst á því hærri greiðslu fær ríkissjóður.

Berskjaldaður í hagsmungæslu ríkissjóðs

Ráðherra er berskjaldaður gegn þeirri staðreynd að hafa gefið eftir í hagsmunagæslu ríkissjóðs gagnvart vogunarsjóðum. Lækkun bankaskattsins er gott dæmi, hann var lækkaður af kröfu vogunarsjóðanna og mun færa þeim milljarða aukalega í arðgreiðslur. Ríkissjóður verður af sama skapi af tekjum upp á 7-8 milljarða kr. á ári.  Ef forkaupsrétturinn hefði verið nýttur hefði það skilað sér aftur til ríkisins, þar sem framundan eru verulegar arðgreiðslur úr bankanum. Auk þess hefði þá verið hægt að koma bankanum í dreifða eignaraðild almennings.

Auðmýkt er undanfari virðingar

Málefni Arion banka varða mikla fjárhagslega hagsmuni ríkissjóðs. Hef ég gagnrýnt frammistöðu  ríkisstjórnarinnar í málinu með málefnalegum hætti og bent á leiðir, sem fara hefði átt til að hámarka hlut ríkisins. Það hefði farið betur á því að fjármálaráðherra hefði svarað gagnrýni minni með málefnalegum hætti. Það gerði hann ekki.                        Auðmýkt er undanfari virðingar.

 

 

 

Auglýsingar