Þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn Sæmundsson: Eru fórnir sauðfjárbænda til einskis? -„Spurningin er: Hvað varð um þessa fórn bænda? Lenti hún hjá afurðastöðvum? Eða hjá kaupmönnum? Svar óskast.”

28378757_10212365456627817_3350906463624043297_n

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Reykjavíkur

Eins og flestum mun kunnugt lækkuðu afurðastöðvar verð til sauðfjárbænda um allt að 29% síðasta haust.  Sú lækkun kom í kjölfar 10% lækkunar árið áður.  Hræddur er ég um að það færi um almenna launþega ef þeir yrðu fyrir viðlíka kauplækkunum fyrirvaralaust og án viðvörunar.  Umræddar lækkanir til sauðfjárbænda voru sagðar nauðsynlegar vegna erfiðrar birgðastöðu auk versnandi afkomu afurðastöðvanna.

Maður hefði haldið að í kjölfar lækkananna og vegna birgðastöðunnar hefði verið gripið til séstakra ráðstafana í markaðsmálum.  Sú er ekki raunin.  Menn hafa að vísu sótt til Kína og víðar og er það góðra gjalda vert.  En á besta markaðnum fyrir sauðfjárafurðir, innanlandsmarkaðnum bólar ekki á neinu.  Engar verðlækkanir engin söluátök, engar uppskriftasamkeppnir.  Fáar nýjungar i skurði og framsetningu nema þær sem Costco innleiddi.

Ekki hafa menn heldur ráðist í söluátök í stóreldhúsum og mötuneytum.  Á matseðlum þeirra mötuneyta sem ég þekki gerst til, mötuneytum stjórnarráðs og Alþingis er lambakjöt t.d. mjög fáséð.  Ekki þekki ég hvernig háttar til í skólaeldhúsum en þarna gætu leynst tækifæri.  Ekki hefur verðlækkunin til bænda skilað sér á disk okkar neytenda.

Spurningin er:  Hvað varð um þessa fórn bænda?  Lenti hún hjá afurðastöðvum?  Eða hjá kaupmönnum?  Svar óskast.

Nú þegar kjarasamningar standa fyrir dyrum koma ýmsir forkólfar vinnuveitenda fram og minnast á nauðsyn hækkana á framleiðsluvörum sínum jafnvel áður en niðurstöður kjarasamninga liggja fyrir.  Þannig kom nýlega fram forstjóri einnar stærstu afurðastöðvar í landbúnaði og boðaði verðhækkanir.  Gott væri ef hann sæi sér fært að svara spurningum mínum hér að framan.  Gott væri einnig ef hann upplýsti um þróun í birgðum sauðfjárafurða eftir þessa skörpu verðlækkun til bænda.

Nú er nýkomin skýrsla um sauðfjárframleiðslu.  Ekki er sá sem hér ritar búinn að gaumgæfa hana en af því sem ratað hefur í fréttir má ráða að nú vilji stjórnvöld ráðast í skarpan niðurskurð í sauðfjárbúskap.  Engar fréttir hafa borist af átaki í  markaðsmálum.  Kannski er ekkert um þau í skýrslunni.  Ekki virðist þar að finna neitt sem leitt gæti til meiri þróunar afurða.  Meiri framleiðslu lífrænna afurða, sterkari upprunamerkingum, upplýsingum um lyfjagjöf.  Allt eru þetta þættir sem orðið gætu til aukinnar sölu jafnt innanlands sem utan.

Ég held að ráð væri að menn gaumgæfðu vel áhrif skarps niðurskurðar í sauðfjárframleiðslu á einstaka bændur, atvinnu í einstökum héruðum, byggðafestu og fleiri slíka þætt áður en ráðist er í víðtækan niðurskurð og áður en stjórnvöld stimpla bændastéttina sem einhvers konar vandamál sem leysa þurfi með niðurskurði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. ágúst 2018

Auglýsingar