Formaður Miðflokksins

Sigmundur Davíð: Af umsátrinu um Alþingi og óförum miðborgarinnar – „Ekki einu sinni helgir reitir fá að liggja í friði. Kirkjugarður þar sem Reykvíkingar voru jarðaðir í hátt í þúsund ár er grafinn upp til að koma fyrir fleiri hótelfermetrum. “

Sigmundur (1)

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti Alþingis, skrifaði góða grein í Morgunblaðinu sl. þriðjudag þar sem raktir voru nokkrir þættir úr hörmungarsögu skipulagsmála í grennd við þinghúsið.

Ég hef fjallað talsvert um hvernig verið er að rústa gamla miðbænum í Reykjavík og ekki hvað síst elstu byggðinni í Kvosinni. Um tíma virtist rofa til í skipulagsmálum borgarinnar. Fyrir nokkrum árum var ráðist í endurbyggingu gamalla húsa á horni Lækjargötu og Austurstrætis og þar áður við enda Aðalstrætis. Nú er allt slíkt fyrir bí. Ásóknin í fermetra ræður för og virðist engin takmörk sett.

Við Lækjargötu, á mest áberandi horni gömlu Reykjavíkur er verið að byggja gríðarstóra kassa ofan á einum elstu bæjarrústum landsins. Þar hafði áður verið liðkað til í skipulaginu svo hægt væri að byggja hús sem félli betur að umhverfinu en gamli Iðnaðarbankinn. En allt slíkt er gleymt hjá borgaryfirvöldunum sem stóðu að því að við hinn enda Lækjargötunnar yrðu byggð hús sem láta helstu skipulagsmistök liðinna áratuga líta út eins og snotur smáhýsi í samanburði.

Ekki einu sinni helgir reitir fá að liggja í friði. Kirkjugarður þar sem Reykvíkingar voru jarðaðir í hátt í þúsund ár er grafinn upp til að koma fyrir fleiri hótelfermetrum. Með því er um leið þrengt að húsum Alþingis með hætti sem ég get ekki ímyndað mér að nokkurt annað þjóðþing í þróuðu ríki myndi láta bjóða sér.

landsæimareitur

Einhvern tímann lærði ég að ekki ættu að vera önnur listaverk við Austurvöll en styttan af Jóni Sigurðssyni til að undirstrika mikilvægi frelsishetjunnar. Við inngang Alþingishússins var þó nýlega reist sóvíesk stytta af fyrstu íhaldskonunni. Styttan er glæsileg þótt ég hafi efasemdir um staðsetninguna. Öllu verra er að gegnt íhaldskonunni liggur enn grjótið sem borgaryfirvöld létu henda fyrir framan Alþingishúsið. Grjót sem ágætur fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar lagði til að yrði flutt í Landeyjahöfn. Annar fyrrverandi þingforseti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sá á sínum tíma þann kostinn vænstan að láta semja frumvarp um að Alþingi öðlaðist skipulagsrétt fyrir svæðið í kringum þingið. Það er löngu tímabært að það frumvarp verði að lögum.

lsr_photo_smallerphoto_1383225342_1f9b4e2fd765676b5e57c4c3f97dfb58

Illu heilli virðist þingið sjálft þó ætla að taka þátt í óförum miðbæjarins með því að láta reisa stóra, gráa steinsteypukassa undir skrifstofur þingsins. Vonandi verða þau áform endurskoðuð sem og önnur áform sem fela í sér eyðileggingu þess litla sem til er af gamalli byggð í höfuðborg Íslands.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. ágúst 2018

 

 

 

Auglýsingar