alþingi

Alþingi: Birgir Þórarinsson vill ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar strax og fjármagna með arðgreiðslu frá Landsbankanum.

Birgir á alþingi 2

Í umræðum um samgönguáætlun, 2019-2033, á Alþingi kom fram í máli Birgis Þórarinssonar þingmanns Miðflokksins í Suðurkjördæmi að hann muni við síðari umræðu málsins flytja breytingartillögu þess efnis að ráðist verði strax á næsta ári í tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni inn í Hafnarfjörð. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir þessari tvöföldun eftir 15 ár.

„Um einbreiða kafla brautarinnar, frá Hvassahrauni og inn í Hafnarfjörð fara 20 þúsund bílar á dag. Öryggi og umferðarálag eiga að vera útgangspunktarnir þegar framkvæmdum er forgangsraðað í samgönguáætlun. Reykjanesbrautin á að vera þar efst á blaði”, segir Birgir.

Hann leggur til að framkvæmdin, sem kostar 3,3 milljarða verði fjármögnuð með sérstakri arðgreiðslu Landsbankans til ríkissjóðs.

”Rekstur Landsbankans er með ágætum og samkvæmt 6 mánaða uppgjöri bankans er ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram. Það er því ekkert til fyrirstöðu að bankinn greiði sérstaklega arð til eiganada síns með þessum hætti svo fjármagna megi þetta brýna samfélagsverkefni. Samkvæmt nýjasta uppgjöri er eigið fé Landsbankans 232 milljarðar. Á þessu árið hefur bankinn greitt 25 milljarða í arð til ríkisins. Sérstök arðgreiðsla upp á 3,3 milljarða mun ekki hafa nein teljandi áhrif á eiginfjárhlutfall bankans, sem er gott eða 24,1% og vel umfram kröfur Fjármálaeftirlistis”, segir Birgir.

Hann segir jafnframt  að það sé rétt að halda því til haga að hagnaður bankans er fyrst og fremst til kominn vegna gjaldtöku á almenning og fyrirtækin í landinu og þá einkanlega vegna hárra vaxta.

„Það er því ekkert óeðlilegt við það að eigandi bankans, sem er ríkissjóður, noti bankann til þess að fjármagna brýna vegaframkvæmd, sem eykur öryggi á hættulegum vegarkafla til muna og allir landsmenn nota”, segir Birgir að lokum.

Ræða Birgis í heild sinni á Alþingi

Horfa

Auglýsingar