alþingi

Karl Gauti: Sala aflátsbréfa raforku – „Mikilvægt er að orkufyrirtækin geti á öllum tímum staðið við þessar væntingar og að ásýnd raforkuframleiðslu hér innanlands fái ekki á sig neitt það óorð sem geti bakað okkur tjón.”

Karlgauti

Karl Gauti Hjaltason – Þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Sala aflátsbréfa raforku

Í Evrópu er stór hluti raforku framleidd með kjarnorku, kolum eða öðrum mengandi orkugjöfum. Evrópusambandið hefur sett sér reglur sem miða að því að skapa markaðsverð fyrir hreinleika raforku og eru viðskipti með upprunaábyrgðir raforku liður í þeirri viðleitni.

Sala aflátsbréfa

Fyrirtæki sem framleiða raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum eins og fallvötnum geta selt slík vottorð innan sambandsins algjörlega óháð því hvort raforkan sé afhent sem slík. Sú staðreynd hefur orðið til þess að ábyrgðirnar eru stundum nefndar aflátsbréf. Fyrirtæki geta með því móti framvísað þessum vottorðum til viðskiptavina sinna og þar með sannað stuðning sinn við hreina orkuframleiðslu. Markmið kerfisins er að auka hlut endurnýjanlega orkugjafa og örva orkuframleiðendur til dáða á grundvelli tekjumöguleika. Hreinleiki orkunnar verður þannig að sjálfstæðri auðlind.

Hreinleiki orku er sjálfstæð auðlind

Með tilskipun EB nr. 77 frá 2001 og lögum nr. 30 frá 2008 voru innleidd í íslenskan rétt ákvæði sem ganga út á að skapa skilyrði á öllu svæðinu fyrir viðskipti á upprunaábyrgðum raforku sem framleiddar eru með endurnýjanlegum orkugjöfum. Var hreinleiki orku þannig skilgreind sem sjálfstæð auðlind.

Níföld aukning á sex árum

Í svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn greinarhöfundar sem barst í lok apríl koma fram upplýsingar um sölu upprunaábyrgða raforku. Þar kemur fram að sala íslenskra orkufyrirtækja á þessum aflátsbréfum hefur stóraukist á síðustu árum. Á árinu 2011 seldu fyrirtækin 2,06 TWst., en var komin í 18,43 TWst. 2017. Aukningin á þessum sex árum er níföld. Samsvarandi raforkunotkun innlands á árinu 2017 er 3,60 TWst., sem er tæp 20%, en ábyrgðir fyrir það sem eftir stendur eru seldar til erlendra kaupenda.

Heildarverðmæti ábyrgða liggur ekki fyrir

Þar kemur fram að heildarverðmæti seldra ábyrgða liggur ekki fyrir, en áætla má að verðmæti þeirra verði 800-850 milljónir á árinu 2018. Þannig er áætlað að Landsvirkjun hafi selt ábyrgðir fyrir 600 milljónir á því ári, Orka náttúrunnar fyrir 150 milljónir og restina selur HS orka, en fjórða fyrirtækið, Orkusalan selur ekki ábyrgðir en lætur þær fylgja fyrir allan sinn markað. Verðið á ábyrgðunum sveiflast mjög og á árabilinu 2011-17 hefur meðalverðið verið á bilinu 0,2-2 evrur á hverja MWst.

Áhrif á raforkuverð

Greinarhöfundur hefur velt upp þeirri spurningu hvort ekki sé hætta á að innlendir framleiðendur gætu lent í vandræðum ef þeir þyrftu að sanna hreinleika raforkukaupa sinna t.d. gagnvart erlendum viðskiptavinum. Þá þyrftu þeir í raun að kaupa vottorð í samkeppni við erlenda aðila. Slíkt gæti hækkað raforkuverð hér innanlands. Ráðherra telur að þessi hætta sé ekki fyrir hendi, því auknar tekjur innlendu raforkufyrirtækjanna ættu fremur að leiða til lækkunar á raforkuverði eða stuðla að nýjum fjárfestingum.

Hreinleiki án endurgjalds

Neytendur hér á landi hafa mátt líta svo að raforkan sem þeir kaupa sé upprunnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum, helst fallvötnum en einnig í auknum mæli jarðvarmaorku. Þeir telja það sanngirnismál að verðmætið sem felst í hreinleika raforkunnar sé afhent þeim án endurgjalds. Þessi staðreynd er okkur mikilvæg og að innlendar vörur séu framleiddar á þennan umhverfisvæna hátt. Mikilvægt er því að orkufyrirtækin geti á öllum tímum staðið við þessar væntingar og að ásýnd raforkuframleiðslu hér innanlands fái ekki á sig neitt það óorð sem geti bakað okkur tjón. Mest um vert í þessu samhengi öllu er að íslensku raforkufyrirtækin haldist áfram að í eigu þjóðarinnar eins og hingað til.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
kgauti@althingi.is

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu

Auglýsingar